umhverfismál Starfsleyfi sem Heilbrigðisnefnd Suðurlands gaf út fyrir fiskþurrkun Lýsis hf. í Þorlákshöfn hefur verið stytt úr fjórum árum í átján mánuði af umhverfisráðuneytinu.
Fiskþurrkun Lýsis hefur mætt mikilli andspyrnu. Sveitarfélagið Ölfus og aðrir sem kærðu starfsleyfi Lýsis sögðu lyktina frá fiskþurrkuninni vera kæfandi og að "á vissum tímum hafi nánast verið ólíft í nábýli við starfsemina," eins og segir í úrskurði ráðuneytisins. Sögðust kærendur ósáttir við að Lýsi fengi endurnýjað starfsleyfi til fjögurra ára "þrátt fyrir ítrekaðar vanefndir fyrirtækisins um að ráða bót á lyktarmengun," segir í úrskurðinum.
Meðal skilyrða fyrir endurnýjuðu starfsleyfi var að Lýsi kæmi upp nýjum búnaði til að eyða lyktarmenguninni. Um var ræða þvotta- og þéttiturn sem síðar reyndist ekki unnt að fá byggingarleyfi fyrir hjá sveitarfélaginu. Lýsi fyrir sitt leyti kærði þetta ákvæði starfsleyfisins til umhverfisráðuneytisins sem tók undir með fyrirtækinu og sagði það hafa verið ólögmætt af hálfu heilbrigðisnefndarinnar sem ekki hafi getað treyst því að Lýsi fengi nauðsynlegt byggingarleyfi fyrir búnaðinum.
Þegar auglýst var á sínum tíma eftir athugasemdum við fyrirhugað starfsleyfi Lýsis kom fram að það ætti að vera til átján mánaða. Heilbrigðisnefnd Suðurlands ákvað síðan að leyfið yrði veitt til mun lengri tíma, eða til fjögurra ára þar sem sá tímarammi væri meginreglan í útgáfu starfsleyfa. Umhverfisráðuneytið tekur hins vegar undir með andstæðingum starfsleyfisins og segir það hafa verið ólögmæta stjórnsýsluhætti af hálfu heilbrigðisnefndar að gera þessa breytingu eftir að frestur til athugasemda var liðinn.
Niðurstaða umhverfisráðuneytisins er að Lýsi fái átján mánaða starfsleyfi fyrir fiskþurrkuninni frá 1. desember 2006 að telja ef fyrirtækinu tekst að afla sér byggingarleyfis fyrir áðurnefndum þvotta- og þéttiturni. Fyrir liggi að mikil og langvarandi mengun hafi stafað frá fiskþurrkuninni. Lýsi er því enn háð því að fá byggingarleyfi frá bæjaryfirvöldum í Ölfusi sem áður hafa hafnað því að gefa út slíkt leyfi.